Körfubolti

Haukur óvænt í byrjunarliðinu í sigri Maryland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson, lengst til vinstri, í leik með Maryland.
Haukur Helgi Pálsson, lengst til vinstri, í leik með Maryland. Mynd/AP
Haukur Helgi Pálsson var óvænt í byrjunarliði Maryland í 75-67 sigri á NC State í fyrstu umferð Atlantic Coast Conference tournament í nótt en Maryland mætir síðan Duke í átta liða úrslitunum í dag. Haukur var með fimm stig, þrjú fráköst og eina stoðsendingu á 20 mínútum.

Maryland komst í 8-2 eftir aðeins 70 sekúndna leik. Haukur var þá búinn að skora fimm stig og hafði heldur betur gefið tóninn í leiknum. Haukur hafði aðeins byrjað einn af sextán leikjum Maryland á þessu tímabili en fékk stóra tækifærið í nótt. Þjálfarinn var líka ánægður með íslenska strákinn í viðtali eftir leikinn.

„Haukur er einn af þessum leikmönnum sem eru götukörfuboltamenn. Með öðrum orðum þá kemur hann alltaf með einhverskonar orku og stemmningu inn í liðið. Hann var frábær í byrjun og hjálpaði okkur að komast strax í gírinn. Það er frábært að sjá nýliða spila svona vel í fyrsta leik sínum í ACC Tournament," sagði Gary Williams, þjálfari Maryland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×