Körfubolti

Helena: Væri algjör draumur að fá að spila í WNBA-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir skrifaði undir samning við slóvakíska liðið Dobri Anjeli frá Kosice í vikunni og er nú komin aftur til Íslands. Helena var í viðtali við Hans Steinar Bjarnason í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Það er frábært tækifæri að fá að spila með liði sem er í Euroleague og ég gat ekki sagt nei við því," sagði Helena Sverrisdóttir um ástæður þess að hún byrjar atvinnumannaferillinn í Slóvakíu.

„Þetta er topplið í Slóvakíu og það er byggt upp eins og dæmigert evrópsk lið. Það eru helmingur leikmannahópsins frá Slóvakíu, þar á meðal sex landsliðsmenn og svo er restin af liðinu evrópskir og bandarískir leikmenn," segir Helena.

„Ég ekki alveg klár hvernig deildin er en ég veit að fimm bestu liðin eru mjög fín og liðið sem ég er að fara til er búið að vinna deildina fimm eða sex ár í röð og er á toppnum," segir Helena sem er ánægð með fyrsta atvinnumannsamninginn sinn.

„Já það er alveg hægt að segja það að ég hafi fengið góðan samning," segir Helena og brosti. Hún segir jafnframt að hún eigi enn möguleika á að komast inn í WNBA-deildina.

„WNBA-deildin er bara yfir sumartímann og það á að vera hægt að spila í báðum deildunum. Nýliðavalið fer fram í byrjun apríl og við verðum bara að sjá til hvernig það fer," segir Helena.

„Það er erfitt að segja hvaða möguleika ég á að komast þangað inn. Kannski hjálpar þessi samningur og kannski ekki. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því. NCAA-úrslitakeppnin er ennþá í gangi hjá stelpunum og þetta verður bata að koma allt í ljóst," sagði Helena.

„Það væri algjör draumur að fá tækifæri til að spila í WNBA-deildinni og mér væri alveg sama hvar þar yrði," segir Helena en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×