Körfubolti

Helena var ekki valin inn í WNBA-deildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Heimasíða TCU
Helena Sverrisdóttir var ekki meðal þeirra 36 leikmanna sem valdir voru inn í WNBA-deildina í nýliðavalinu sem fram fór í nótt en hún var að klára fjögurra ára glæsilegan feril með TCU-háskólanum á dögunum.

Það var hin magnaða Maya Moore sem var valin fyrst af Minnesota Lynx en Moore átti frábæran feril með UConn skólanum og var með 22,9 stig, 8,1 frákast og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik á lokaári sínu. Tulsa Shock vald síðan ástralska miðherjann Elizabeth Cambage númer tvö.

Helena var með 15,6 stig, 5,8 fráköst og 4,5 stoðsendingar að meðaltali á lokaári sínu með TCU en það vann mikið á móti henni að TCU-liðið komst ekki inn í úrslitakeppni NCAA.

Helena var alls með 1759 stig (13,5 í leik), 826 fráköst (6,4) og 546 stoðsendingar (4,2) í 130 leikjum fyrir TCU-liðið á þessum fjórum árum og hún var auk þess í byrjunarliðinu í 127 af þessum 130 leikjum sem er skólamet.

Helena gerði nýverið saming við slóvakísku meistarana í Dobri Anjeli frá Kosice og mun spila með liðinu í Euroleague á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×