Körfubolti

Norrköping jafnaði einvígið á móti Sundsvall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Mynd/Valli
Norrköping Dolphins náði að jafna úrslitaeinvígið á móti Sundsvall Dragons eftir 93-84 sigur í fjórða leik liðanna í kvöld. Sundsvall var búið að vinna tvo leiki í röð í einvíginu en það lið sem fyrr vinnur fjóra leiki verður sænsku meistari.

Hlynur Bæringsson var með 18 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar fyrir Sundsvall og Jakob Örn Sigurðsson, sem hitti ekki vel (3 af 15), bætti við 10 stigum og 4 stoðsendingum.

Sundsvall var með frumkvæðið í fyrsta leikhluta og var þremur stigum yfir, 23-20, eftir hann. Liðin skiptust á forystu í öðrum leikhluta en Norrköping var með eins stigs forskot í hálfleik, 47-46. Hlynur var með 7 stig í fyrri hálfleik og Jakob skoraði 5 stig fyrir hlé.

Úrslitin réðust hinsvegar í þriðja leikhlutanum og þá einkum á byrjun hans þar sem Norrköping skoraði þrettán af fyrstu fjórtán stigunum. Norrköping vann leikhlutann 24-8 og var því 71-54 yfir fyrir lokaleikhlutann.

Sundsvall náði að laga stöðunni í fjórða leikhlutanum en sigur heimamanna var þó aldrei í mikilli hættu þrátt fyrir að Sundsvall hafi minnkað muninn í sjö stig á lokamínútunni. Sundsvall-liðið réð illa við bandaríska bakvörðinn Andrew Mitchell sem skoraði 37 stig í leiknum og tapaði ennfremur fráköstunum 55-30.  

Fimmti leikurinn fer fram á heimavelli Sundsvall á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×