Körfubolti

Bryndís búin að semja við KR - áfall fyrir Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryndís Guðmundsdóttir með Íslandsbikarinn í vor.
Bryndís Guðmundsdóttir með Íslandsbikarinn í vor. Mynd/Daníel
Kvennalið KR fékk mikinn liðstyrk í dag þegar landsliðskonan Bryndís Guðmundsdóttir skrifaði undir samning við KR-liðið. Bryndís átti frábært tímabil í vetur og var lykilmaður í þreföldum sigri Keflavíkurliðsins.

Bryndís er 23 ára gamall framherji sem hefur spilað alla tíð með Keflavík fyrir utan hálft tímabil þar sem hún spilaði með belgíska liðinu Royal Charleroi. Það er ljóst að það er mikið áfall fyrir Keflvíkinga að missa Bryndísi yfir í KR.

Bryndís var með 14,0 stig, 8,1 fráköst og 3,4 stoðsendingar að meðaltali í Iceland Express deildinni í vetur en hún skoraði síðan 15,1 stig að meðaltali í úrslitakeppninni. Bryndís var kosin í úrvalslið deildarinnar í lok tímabilsins og kom sterklega til greina sem besti leikmaður tímabilsins.

Margrét Kara Sturludóttir og Hafrún Hálfdánardóttir skrifuðu á sama tíma undir nýjan samning við KR-liðið. Margrét Kara er búin að vera í KR frá því um áramótin 2008 til 2009 en Hafrún var að klára sitt fyrsta tímabil í Vesturbænum.

KR missti fyrirliða sinn Hildi Sigurðardóttur í Snæfell á dögunum en með tilkomu Bryndísar er ljóst að KR-liðið verður áfram í baráttunni um titlana næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×