Fótbolti

Þrjú íslensk mörk í Íslendingaslag í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Daníel
Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði bæði mörk Norrköping sem gerði 2-2 jafntefli við IFK Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Ragnar Sigurðsson skoraði jöfnunarmark Gautaborgar í leiknum.

Gunnar Heiðar skoraði fyrsta markið strax á fyrstu mínútu en Gautaborg jafnaði á fjórtándu mínútu. Gunnar Heiðar skoraði svo aftur á 20. mínútu en Ragnar jafnaði með marki skömmu fyrir leikhlé.

Ekkert var skorað í síðari hálfleik og jafntefli því niðurstaðan. Gunnar Heiðar lék allan leikinn fyrir Norrköping en þeir Ragnar, Hjörtur Logi Valgarðsson og Theodór Elmar Bjarnason léku allan leikinn fyrir Gautaborg. Hjálmar Jónsson var á meðal varamanna og kom ekki við sögu.

GAIS vann 1-0 sigur á Syrianska en Hallgrímur Jónasson sat á bekknum hjá GAIS að þessu sinni og spilaði ekki.

Eyjólfur Héðinsson spilaði allan leikinn er lið hans, SönderjyskE, vann 1-0 sigur á Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni. Ólafur Ingi Skúlason var hins vegar ekki í hópnum í dag en markvörðurinn Arnar Darri Pétursson var á bekknum.

Arnór Smárason lék fyrstu 74 mínúturnar er Esbjerg gerði markalaust jafntefli við Álaborg ´a heimavelli.

Esbjerg er í slæmum málum í deildinni en liðið er í tólfta og neðsta sæti deildarinnar með 29 stig þegar þrjár umferðir eftir.

Það lítur út fyrir æsispennandi fallslag á lokasprettinum þar sem aðeins þrjú stig skilja að liðin í sjötta og ellefta sæti deildarinnar. SönderjyskE er í þeim pakka - með 33 stig í níunda sæti.

Íslendingar voru í eldlínunni í norsku B-deildinni í dag. Asker vann 1-0 sigur á Hönefoss á útivelli en Kristján Örn Sigurðsson er leikmaður síðarnefnda liðsins.

Atli Heimisson var í byrjunarliði Asker en var skipt af velli á 57. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×