Körfubolti

Jón Arnór: Held ég haldi mig á Spáni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Arnór Stefánsson hefur saknað strákanna í íslenska landsliðinu í körfuknattleik. Nýr landsliðsþjálfari, Svínn Peter Öqvist, var kynntur til leiks á blaðamannafundi KKÍ í dag.

„Já, ég sakna þess örugglega mest að hitta alla strákana og spila með þeim. Gott að það sé búið að hóa hópnum saman aftur. Ég held við eigum ágæta möguleika á Norðulandamótinu."

Jón Arnór telur íslenska liðið sterkara en áður.

„Við erum með fleiri atvinnumenn í hópnum og hópurinn er reyndari. Við erum allir á okkar besta aldri. Hópurinn er breiður og allir eru með."

Jón Arnór spilaði vel með Granada á Spáni síðastliðið tímabil þótt liðinu hafi ekki gengið sem skildi. Það féll og um leið lauk samningstíma Jóns Arnórs hjá félaginu. Hann segist vita af einhverjum áhuga liða.

„Ég er samningslaus en það er að dúkka upp einhver áhugi hér og þar. Maður er búinn að vera nógu lengi í þessu þannig að áhuginn ætti að koma til staðar."

Jón Arnór virðist spenntur fyrir því að halda sig í sunnanverðri Evrópu.

„Ég held ég haldi mig bara á Spáni en væri spenntur fyrir Ítalíu ef það kæmi upp."

Jón Arnór segist ekki hafa komið til greina að gefa ekki kost á sér og njóta sumarfrísins.

„Nei, þetta er alltaf svo gott sumarfrí hérna heima. Maður hefur nógan tíma til að gera það semi manni sýnist. Ég er bara spenntur í að æfa vel í sumar. Það hjálpar manni fyrir næsta tímabil. Þá er maður í góðu formi og dettur ekki í letipakkann hér á sumrin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×