Tugþrautarkappinn Einar Daði Lárusson úr ÍR hóf í dag keppni á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum fyrir keppendur yngri en 23 ára. Keppt er í Ostrava í Tékklandi.
Einar Daði hóf keppni í tugþrautinni í morgun með 100 metra hlaupi. Hann hljóp á tímanum 11,17 sekúndur sem er hans besti árangur. Fyrir það fékk hann 823 stig.
Einar Daði bætti sig einnig í langstökki þegar hann stökk 7,28 metra í sínu öðru stökki og hlaut fyrir það 881 stig.
Einari Daða gekk ekki sem skildi í kúluvarpinu og fékk aðeins 571 stig. Hann kastaði kúlunni 11,42 metra sem er töluvert frá hans besta. Enginn kastaði skemur en Einar Daði. Kúluvarp er ekki sterkasta grein Einars Daða.
Í hástökkinu stökk Einar Daði 2,01 metra og hlaut fyrri það 785 stig.
Í 400 metra hlaupinu hjóp Einar Daði á tímanum 49,32 sekúndum og hlaut 846 stig.
Einar Daði er í 15. sæti að loknum fyrri deginum með 3.906 stig. Hvít-Rússinn Eduard Mikhan er efstur með 4250 stig. Keppni heldur áfram á morgun.
Besti árangurs Einars Daða í tugþraut er 7.587 stig.
Sjöþrautarkonann Helga Margrét Þorsteinsdóttir úr Ármanni, hefur keppni í grein sinni á laugardaginn. Sama dag fer fram keppni í kringlukasti karla þar sem Blake Jakobsson úr FH er meðal keppenda.
Hægt er að fylgjast með gangi mála í Ostrava á heimasíðu mótsins með því að smella hér.
Einar Daði í 15. sæti á EM eftir fyrri daginn
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
