Fótbolti

Di Natale um Arsenal-leikinn: Stærsti leikurinn í sögu Udinese

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Di Natale fagnar hér með börnum sínum þegar Udinese komst í Meistaradeildina í vor.
Antonio Di Natale fagnar hér með börnum sínum þegar Udinese komst í Meistaradeildina í vor. Mynd/Nordic Photos/Getty
Antonio Di Natale, fyrirliði ítalska liðsins Udinese, segir að leikur liðsins á móti Arsenal í forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld sé sá mikilvægasti og stærsti í sögu félagsins.

„Það er mín skoðun að það hafi ekki farið fram stærri leikur í sögu Udinese. Sá leikur sem kemst næst því er leikurinn á móti Ajax árið 1997 en hann var bara í UEFA-keppninni. Þetta er leikur í Meistaradeildinni," sagði Antonio Di Natale sem hefur spilað með Udinese frá árinu 2004.

Antonio Di Natale er 33 ára framherji sem á að baki 36 landsleiki fyrir Ítala og hefur verið markakóngur ítölsku deildarinnar undanfarin tvö ár. Hann hefur hreinlega farið á kostum með liðinu undanfarin tvö ár, skoraði 28 mörk í 36 leikjum á síðustu leiktíð og 29 mörk í 35 leikjum tímabilið á undan.

Arsenal og Udinese mætast á Emirates-vellinum klukkan 18.45 í kvöld og er leikurinn í beinni á Stöð 2 Sport. Seinni leikurinn fer síðan fram á Ítalíu í næstu viku. Það lið sem hefur betur í þessum tveimur leikjum kemst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en tapliðið fer í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×