Körfubolti

Haukar búnar að semja við fjölhæfan leikstjórnanda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jence Rhoads sést hér í vörn í leik með Vanderbilt skólanum.
Jence Rhoads sést hér í vörn í leik með Vanderbilt skólanum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kvennalið Hauka hefur samið við bandaríska leikstjórnandann Jence Rhoads um að hún spili með liðinu á komandi vetri. Rhoads átti flottan feril með Vanderbilt skólanum og kom til greina þegar nýliðaval WNBA-deildarinnar fór fram í vor.

Jence Rhoads er 181 cm hár leikstjórnandi sem getur leikið margar stöður inni á vellinum vegna hæðar sinnar. Hún er eini leikmaðurinn í sögu Vanderbilt skólans sem náði að skora 1100 stig, gefa 500 stoðsendingar og taka 400 fráköst.

Jence Rhoads var með 11,7 stig, 4,9 fráköst og 4,8 stoðsendingar að meðaltali á lokaári sínu í skólanum en hún endaði í þriðja sætinu yfir þá leikmenn sem hafa gefið flestar stoðsendingar í sögu skólans.

Jence var kosin í úrvalslið SEC-deildarinnar af þjálfurum hennar og var ein af þeim sem komu til greina í úrvalslið bandaríska háskólaboltans á síðustu leiktíð að mati Associated Press. Hér er því um sterkan leikmann að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×