Tiger Woods og Adam Scott hafa verið dregnir saman í holl í Forsetabikarnum í golfi en augu flestra munu sjálfsagt beinast að Tiger og Steve Williams, kylfusveini Scott.
Williams var kylfusveinn Tiger í meira en áratug en Tiger ákvað svo að reka Williams fyrr á þessu ári. Ýmislegt hefur gerst síðan. Williams er nú kylfusveinn Ástralans Adam Scott en hann komst í fréttirnar fyrir tveimur vikum síðan fyrir að nota niðrandi orðalag um Tiger, sem hann baðst síðar afsökunar á.
Woods og Scott munu mætast í fjórleik strax á fyrsta degi. Woods verður í liði með Steve Stricker og mæta þeir Scott og KJ Choi frá Suður-Kóreu.
Í Forsetabikarnum mætast keppnislið Bandaríkjanna og úrvalslið heimsins, það er að segja utan Evrópu og Bandaríkjanna.
Tiger og gamli kylfusveinninn saman í ráshóp
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
