Kim Jong-il, leiðtogi Norður-Kóreu, er látinn 69 ára að aldri. Tilkynnt var um lát hans í ríkissjónvarpi landsins í morgun og gat þulurinn ekki haldið aftur af tárum sínum þegar hann las tilkynninguna.
Samkvæmt henni lést Kim Jong-il vegna gríðarlegs vinnuálags sem leiddi til hjartaslags um helgina. Jarðarför leiðtogans verður á miðvikudag milli jóla og nýárs.
Kim Jong-il hafði verið leiðtogi Norður Kóreu síðan árið 1994 en reiknað er með að þriðji sonar hans, Kim Jong- un taki við leiðtogastöðunni.
Mikill titringur er í Suður-Kóreu vegna láts leiðtogans. Stjórnarherinn er í viðbragðsstöðu og öryggisráð landsins hefur verið kallað saman til neyðarfundar. Þá varð mikil lækkun á hlutabréfamarkaðinum í Seoul höfuðborg landsins þegar fréttin barst.

