Körfubolti

Hildur fór fyrir endaspretti Snæfells í Grafarvogi | Snæfell í 4.sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir.
Hildur Sigurðardóttir. Mynd/Anton
Snæfell vann níu stiga sigur á Fjölni, 94-85, í Garfarvogi í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í kvöld en þetta var fyrsti leikurinn í 14. umferð sem klárast á morgun.

Hildur Sigurðardóttir skoraði 9 af 18 stigum sínum á síðustu þremur mínútum leiksins en Snæfell hafði þá misst bandarísku stelpuna Kieraah Marlow af velli með fimm villur.

Kieraah Marlow var með 25 stig og 15 fráköst í leiknum en Hildur var með 15 fráköst og 8 stoðsendingar auk stiganna 18. Björg Einarsdóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir og Helga Hjördís Björgvinsdóttir skoruðu allar 12 stig og Hildur Björg var líka með 14 fráköst og 4 stoðsendingar.

Brittney Jones átti góðan leik fyrir Fjölni í kvöld en hún var með 28 stig, 7 stoðsendingar og 8 stolna bolta. Birna Eiríksdóttir skoraði 14 stig.

Fjölnir var með frumkvæðið í upphafi leiks en Snæfell var komið fimm stigum yfir, 17-22, þegar 69 sekúndur voru eftir af fyrsta leikhlutanum. Fjölnir skoraði fimm síðustu stig leikhlutans og jafnaði metin í 22-22.

Snæfell komst í 27-22 í byrjun annars leikhluta en Fjölnisliðið var fljótt að jafna og komst síðan þremur stigum yfir 37-34, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Snæfell skoraði hinsvegar sex síðustu stig leikhlutans og var 40-37 yfir í hálfleik.

Snæfell komst í 43-37 og 44-39 í upphafi seinni hálfleiks en Fjölnisliðið náði í framhaldinu góðum spretti og komst mest sjö stigum yfir áður en Snæfell náði að minnka muninn í 62-59 fyrir lokaleikhlutann.

Staðan var 71-71 þegar Snæfell missti Kieraah Marlow útaf með fimm villur og útlitið var því ekki bjart. Þetta kveikti hinsvegar í Snæfellsliðinu em breytti stöðunni úr 73-71 fyrir Fjölni í 73-83 á aðeins rúmum tveimur mínútum. Hildur Sigurðardóttir skoraði níu af þessum tólf stigum.

Fjölni minnkaði aðeins muninn í lokin en Snæfell fagnaði mikilvægum sigri í baráttunni fyrir sæti í úrslitakeppninni. Liðið fór upp í 4. sætið og upp að hlið KR en KR heldur þriðja sætinu á betri árangri í innbyrðisviðureignum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×