Alls segjast 61,3 prósent þeirra sem afstöðu taka til samningsins ætla að samþykkja hann í þjóðaratkvæðagreiðslunni, en 38,7 prósent ætla að hafna honum.
Stór hluti kjósenda, um 29,6 prósent, á enn eftir að gera upp hug sinn samkvæmt könnuninni. Um 3,5 prósent sögðust ekki ætla að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Meirihluti þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna og Vinstri græn, yrði kosið til þings núna, ætlar að samþykkja Icesave-samninginn. Yfirgnæfandi meirihluti stuðningsmanna Framsóknarflokksins segist ætla að hafna samningnum.

Í könnun MMR, sem gerð var dagana 20. til 21. febrúar, sögðust 57,7 prósent myndu samþykkja Icesave-samninginn en 42,3 prósent sögðust myndu hafna honum.
Hringt var í 800 manns miðvikudaginn 23. febrúar og fimmtudaginn 24. febrúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.
Spurt var: Ætlar þú að samþykkja Icesave-samkomulagið eða hafna því í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu? Alls tóku 63,4 prósent afstöðu til spurningarinnar.- bj