
Hvorki Háskóli Íslands né Háskóli Reykjavíkur munu koma að verkefninu, en stofnanir innan þeirra höfðu boðið fram krafta sína til þessa.
Samstarfsaðili Alþjóðamálastofnunar HÍ, breska fyrirtækið Ecorys, er hætt við. Það telur sér ekki fært að taka þátt í verkefninu því ESB ætlar að eyða allt of litlu fjármagni í það, að sögn Baldurs Þórhallssonar, stjórnarformanns Alþjóðamálastofnunar HÍ.
Áætlaður heildarkostnaður ESB mun vera 1,4 milljónir evra til tveggja ára, eða tæpar 224 milljónir íslenskra króna.
Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík ætlaði í samstarf um kynningarmálin með College of Europe í Brugge (CoE).
„Þeir sögðu okkur að þetta væri stærra verkefni en þeir gerðu sér grein fyrir í byrjun og hættu við," segir Jóhann Hlíðar Harðarson, upplýsingafulltrúi HR.
Samkvæmt heimildum blaðsins hefur hópur ráðgjafarfyrirtækisins Cecoforma hætt við þátttöku í útboðinu. Fyrirtækinu hafi komið íslenskur launakostnaður á óvart.
Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi, vill hvorki neita né staðfesta neitt um stöðu útboðsmálanna á meðan þau eru í ferli. Líklega verði tilkynnt um niðurstöðu útboðsins í næstu viku.
- kóþ

