Úkraínski stórmeistarinn Yuriy Kuzubov leiddi enn í gærkvöldi á MP Reykjavíkurskákmótinu með sex vinninga. Í sjöundu umferð gerði hann jafntefli við stigahæsta keppanda mótsins, Englendinginn Luke McShane.
Að minnsta kosti átta skákmenn koma í humátt á eftir Kuzubov með fimm og hálfan vinning. Hannes Hlífar Stefánsson og Sigurður Daði Sigfússon eru efstir íslensku skákmannanna með 5 vinninga en sá síðarnefndi hefur unnið 3 skákir í röð.
Mótið er jafnframt Norðurlandamót í skák. Norðmaðurinn Jon Ludvig Hammer er efstur í opnum flokki með fimm og hálfan vinning. - sh
