
Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, staðfestir að stefnan sé tilbúin og verði birt Birni og þingfest fyrir dómi að loknu réttarhléi í haust.
Málið snýst um nýlega bók Björns, Rosabaug yfir Íslandi, þar sem hann rekur sögu Baugsmálsins og áhrif þess á íslenskt samfélag.
Jón Ásgeir, sem var á sínum tíma bæði forstjóri og stjórnarformaður Baugs, hefur gagnrýnt bókina, einkum þá fullyrðingu sem í henni er að finna að hann hafi verið sakfelldur fyrir fjárdrátt í Baugsmálinu. Hið rétta er að Jón Ásgeir var sakfelldur fyrir bókhaldsbrot.
Björn leiðrétti þetta ranghermi eftir að á það var bent, bæði á vefsíðu sinni og í fjölmiðlum.
Aðspurður segir Gestur að þetta atriði sé þó ekki það eina sem stefnt verður út af, án þess að vilja fara nánar út í það hvað fleira hann og skjólstæðingur hans telja að geti flokkast sem ærumeiðingar. Hann vildi ekki heldur tjá sig um mögulega bótakröfu eða fjárhæð. - sh