Körfubolti

Einstæð móðir á leiðinni í atvinnumennsku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanney Lind Guðmundsdóttir Í leik með Hamarsliðinu á síðasta tímabili.
Fanney Lind Guðmundsdóttir Í leik með Hamarsliðinu á síðasta tímabili. Mynd/Daníel
Helena Sverrisdóttir verður ekki eina íslenska körfuboltakonan sem spilar í Evrópu í vetur því þær Fanney Lind Guðmundsdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir eru einnig á útleið. Fanney hefur samið við franska liðið Union Sportive de La Glacerie sem spilar í NF2-deildinni og Ragna Margrét ætlar að fylgja kærasta sínum, Pavel Ermolinskij, til Sundsvall í Svíþjóð.

„Ég er búin að vera að stefna að þessu í ár. Ég er mjög spennt fyrir þessu en líka smá stressuð. Þetta verður öðruvísi enda í fyrsta skiptið sem ég spila fyrir annað lið en Hamar. Ég var lengi að hugsa þetta því það var svolítið erfitt að fara frá Hamri. Það er bara ekki oft sem maður fær svona tækifæri og ég ákvað bara að slá til,“ sagði hin 22 ára Fanney sem er á leiðinni til Cherbourg í Normandíhéraði í Frakklandi. Fanney ætlar bara að einbeita sér að körfunni úti en hún verður ekki ein úti þar sem fjögurra ára dóttir hennar, Máría Líney Dalmay, verður með í för.

„Hún verður með mér úti en kemur nokkrum vikum seinna með mömmu. Ég verð síðan með „au pair“ sem mun gæta hennar á meðan ég er á æfingum og í leikjum. Þetta er algjör draumur og ég er mjög ánægð,“ sagði Fanney sem kvíðir því ekki að vera einstæð móðir í atvinnumennsku.

„Það er allt hægt og ég ákvað bara að prófa þetta,“ sagði Fanney sem var lykilmaður í deildarmeistaraliði Hamars á síðasta tímabili. „Ég er mjög stolt af mínum tíma í Hamri en þetta verður bara ævintýri,“ sagði Fanney Lind sem mun spila í sömu deild og Sigrún Ámundadóttir gerði á síðasta tímabili.

Ragna Margrét sem hefur leikið með Haukum ætlar að spila með KFUM Sundsvall í næstefstu deildinni í Svíþjóð.

„Ég hafði samband við þjálfarann og spurði hvort ég mætti ekki vera með. Hann var mjög glaður með það,“ sagði Ragna Margrét. Telja má líklegt að Ragna verði mikill liðstyrkur fyrir Sundsvall-liðið enda spilaði hún mjög vel með Haukum á síðustu leiktíð og var valin í lið ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×