Skoðun

Ég hef ekki efni á því að vinna með gleði í hjarta!

Helga C Reynisdóttir skrifar
Að vera leikskólakennari er skemmtilegasta starf sem ég hef unnið við enda starfaði ég sem leikskólaliði í níu ár áður en ég hóf nám í Kennaraháskólanum árið 2003. Ég hef þar af leiðandi mikla reynslu af öllu því metnaðarfulla starfi sem unnið er í leikskólanum. Þetta starf er svo fjölbreytt og gefandi að mér finnst heiður að hafa fengið að starfa með öllu þessu flotta samstarfsfólki og nemendum sem hafa farið í gegnum leikskólann minn í öll þessi ár.

Hlutverk mitt sem leikskólakennari felst m.a. í þeirri gefandi vinnu að taka á móti og aðlaga í leikskólann það mikilvægasta sem foreldrar eiga, sem eru börnin þeirra: Ég er sáluhjálpari á erfiðum tímum í lífi barnanna, er fyrsta hjálp þegar þau skrapa á sér hnén eftir eltingaleik, traustur vinur þegar einhvað bjátar á og þeirra helsti stuðningsaðili þegar yfirstíga þarf hindranir. Í staðinn fæ ég faðmlög, ómælda gleði í hjartað og fullkomið traust nemenda minna. Þetta er einungis brot af vinnu leikskólakennara, því okkar hlutverk er að standa vörð um nám og velferð okkar nemenda.

Með námi á ég við fjölþætta aðalnámskrá leikskóla sem við vinnum eftir og kemur inn á fjölmörg svið s.s. náttúru og umhverfismennt, heilbrigði og velferð, málrækt, lýðræði og svona mætti lengi telja. Þetta vinnum við með í gegnum leik og starf allt árið um kring, þrátt fyrir niðurskurð og góðærið sem aldrei kom inn í leikskólann. Í góðærinu átti leikskólinn erfitt uppdráttar því launin voru svo lág að fólk sótti ekki um þau störf sem voru laus.

Í kreppunni er þetta ekkert betra, við vinnum undir miklu álagi þar sem flest sveitarfélög hafa skorið niður afleysingar og velta álaginu yfir á starfsfólk og kennara sem standa þó alltaf sína plikt sama hvað sem á bjátar. Sem 35 ára leikskólakennari með deildarstjórn ber ég ábyrgð á 23 tveggja ára nemendum og fjórum starfsmönnum. Fyrir það fæ ég 209.409 kr. í vasann eftir skatta og launatengd gjöld. Ég hef ekki lengur efni á að vinna með gleði í hjarta.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×