Faxi RE, skip HB Granda, hefur náð 700 tonna síldarafla á Breiðafirði í einu til tveimur köstum. Aflinn fer til vinnslu hjá frystihúsi fyrirtækisins á Vopnafirði sem er sérhannað fyrir uppsjávarfisk.
Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram í viðtali við skipstjórann á Faxa, Albert Sveinsson, að aðstæður hafa verið góðar á sundunum í Breiðafirði og veiðarnar gengið vel.
Hann segir erfitt að átta sig á hversu mikið af síld er á þeim slóðum sem veiðarnar fara fram því síldin gengur inn á grunnsævi við eyjar og hólma þar sem skipin komast ekki að henni.
Síldin er væn. Meðalvigt í síðustu veiðiferð reyndist vera 326 grömm en í fyrri veiðiferðinni gáfu mælingar til kynna meðalvigt upp á um 340 grömm.
Ingunn AK og Lundey NS hófu leit að loðnu á Vestfjarðamiðum á föstudag og áfram í átt að Kolbeinseyjarhrygg. Aðeins varð vart við smáloðnu.
Slæmt veður er og hefur verið á miðunum á Grænlandssundi og komið í veg fyrir loðnuveiðar. Vart hefur orðið við loðnu á þessum slóðum og er þess nú aðeins beðið að veðrið gangi niður þannig að hægt verði að hefja veiðar. - shá

