Skoðun

Yfirlýsing frá Teiti Atlasyni

Teitur Atlason skrifar
Gunnlaugur M. Sigmundsson, sá sem stefndi mér vegna skrifa um Kögunarmálið, birti í gær yfirlýsingu í Fréttablaðinu þar sem hann viðurkennir að hafa sent mér nafnlaus SMS sem innihéldu aðdróttanir, furðudylgjur og óra sem vart er hægt að hafa eftir. Málið má rekja til þess að í ágúst var ég nýkominn heim til Gautaborgar eftir frábært frí á Íslandi með fjölskyldu minni. Í því sem ég er eitthvað að nördast á netinu heyri ég dauft píp úr síma sem ég var búinn að pakka ofan í kassa. Ég opna kassann og sé að gamli góði Nokia-hlunkurinn minn er á síðasta strikinu að rembast við að segja mér eitthvað. Jú, tólf ólesin SMS.

Ég setti símann á skrifborðið og hlóð tækið. SMS voru frá einhverjum sem sagðist vera í Gautaborg. Íslenska stafi vantaði í skilaboðin og réttritun var ábótavant. Efni skilaboðanna var hins vegar með þeim ólíkindum að ég sá tilefni til að senda þau til lögreglunnar til rannsóknar. Skilaboðin komu frá ja.is og en þar eru öll SMS „logguð" og misnotkun varðar við lög.

Nú, þegar rannsókn málsins er vel á veg komin, hefur Gunnlaugur M. Sigmundsson stigið fram og játað að vera sendandi nafnlausu skilaboðanna. Skýring hans er sú að hann hafi setið undir „holskeflu ærumeiðandi ummæla" vegna Kögunarmálsins. Umræðan hafi „lagst þungt á hann". Hér kveður við annan Gunnlaug en þann sem sagði fólki að fara til helvítis í láréttri stöðu og þann sem rak undirmann sinn fyrir einhvern brandara. Og þetta er annar Gunnlaugur en sá sem hefur kallað mig opinberlega galin mann.

Gunnlaugur Sigmundsson ber fyrir sig að hafa í einhvers konar örvilnan eða stundarbrjálæði sent þessi nafnlausu SMS. Þess má geta að skilaboðin sem mér bárust voru 12 talsins en ekki 4 eins og hann fer rangt með í yfirlýsingunni í gær. Lögreglan getur staðfest það. Þau voru send skipulega á þriggja daga tímabili, ávallt á sama tíma dags. Lögreglan getur líka staðfest það. Þetta mál er sorgarsaga. Þessi nýjasti kafli er mannlegur harmleikur. Ég hef ítrekað boðið Gunnlaugi að falla frá málsókninni á hendur mér. Ég hef líka lagt til að við báðir legðum fram ein mánaðarlaun til góðgerðarmála í stað alls þess lögfræðikostnaðar sem er óhjákvæmilegur. Þessu hefur Gunnlaugur hafnað. Raunar hefur hann bætt við stefnuna og stefnt mér fyrir ummæli þar sem ég segi hann neyta fjárhagslegs aflsmunar gegn mér.

Eins og Guðmundur Andri Thorsson segir í grein sinni „Kúgun og Kögun" frá 15. ágúst sl. mun Gunnlaugur „ekki endurheimta æru sína úr klóm Teits Atlasonar. Hún er ekki þar". En hann gæti látið staðar numið. Sjálfs sín vegna.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×