„Kaldir meðaltalsútreikningar í excel-skjölum segja ekkert til um aðstæður á einstökum stöðum,“ segir bæjarstjórn Grundarfjarðar, sem hvetur Heilbrigðisstofnun Vesturlands til að skera niður í öðru en heilsugæslunnni.
Bæjarstjórnin segir Grundfirðinga hafa búið við stöðuga læknisþjónustu í áratugi. Boðuð sameining vaktsvæða á Snæfellsnesi geti sett það í uppnám.
„Einnig er vandséð að fyrirhugaðar breytingar leiði til sparnaðar þegar upp er staðið, til dæmis vegna aukins kostnaðar við sjúkraflutninga,“ segir bæjarstjórnin, sem kveður válynd vetrarveður á norðanverðu Snæfellsnesi hafa áhrif á samgöngur. Tryggja þurfi sólarhringsviðveru læknis í Grundarfirði.- gar
