Skoðun

Frá degi til dags

Vissulega er það rétt athugað hjá Kolbeini Óttarssyni Proppé, blaðamanni Fréttablaðsins, að menn ættu heldur að sitja á strák sínum en fullyrða um óorðnar niðurstöður í Icesave-málinu, eins og hann ræddi í dálki sínum Frá degi til dags í blaðinu í gær. Við vitum auðvitað ekki hvernig fer.

Um leið skensar Kolbeinn mig fyrir að hafa árið 2009 sagt að gjaldeyrishöftin brytu EES-samninginn. Að EFTA-dómstóllinn hafi í vikunni staðfest gildi þeirra. Því skulum við svo sannarlega fagna.

En nú er það svo að gjaldeyrishöft ganga almennt gegn meginhugmyndum innri markaðarins sem Ísland tengist í gegnum EES-samninginn. Því var sannarlega rétt að velta þeirri spurningu upp árið 2009 hvernig þetta tvennt gæti farið saman. Það var áleitin spurning.

Sem betur fer hafa samstarfsþjóðir okkar sýnt skilning í málinu. Hér var jú neyðarástand. Um leið og ég tek undir með Kolbeini um að menn ættu að varast of mikinn fullyrðingaflaum í flóknum álitamálum er rétt að halda því til haga að áhyggjur margra af gildi gjaldeyrishaftanna fyrir tveimur árum voru fyllilega réttmætar. Og eru raunar enn. Því tæpast vilja margir búa við viðamikil gjaldeyrishöft til langframa.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×