Verja á 650 milljónum króna í byggingu nýrrar félagsmiðstöðvar í Spönginni í Grafarvogi. Þar munu þjóðkirkjan og hjúkrunarheimilið Eir meðal annarra hafa aðstöðu.
„Þarna verður fyrst og fremst aðstaða fyrir Korpúlfa, sem er félagsstarf eldri borgara í Grafarvogi. Kirkjan verður þarna með kirkjusel og Eir með þjónustu fyrir heilabilaða," segir Hrólfur Jónsson, forstöðumaður framkvæmda- og eignasviðs borgarinnar. Nýja byggingin verður einmitt tengd Eir með yfirbyggðum gangi. Áætlað er að taka húsið í notkun á árinu 2014.
Hrólfur segir hugmyndina að félagsmiðstöð á þessum stað eiga rætur að rekja aftur til ársins 1996. Útfærslan hefur tekið breytingum í gegnum tíðina. Þar til í hruninu var rætt um töluvert stærri byggingu sem einnig átti að hýsa Borgarbókasafnið og hverfisþjónustumiðstöðina Miðgarð. Bóksafnið verður hins vegar áfram í Grafarvogskirkju og Miðgarður verður í leiguhúsnæði á Gylfaflöt.- gar
Byggja félagsmiðstöð í Spönginni
