Fótbolti

Messi pressar á Barcelona að gera nýjan samning við Guardiola

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/AP
Lionel Messi vill endilega að Barcelona framlengi samning sinn við þjálfarann Pep Guardiola og hann hefur sett pressu á forráðamenn félagsins með því að segja að hann geti ekki ímyndað sér félagið án Guardiola.

Messi hefur blómstrað undir stjórn Pep Guardiola sem sést vel á því að argentínski snillingurinn er búinn að skora meira en 120 mörk fyrir félagið síðan að Guardiola tók við af Hollendingnum Frank Rijkaard fyrir 2008-09 tímabilið.

„Sannleikurinn er sá, að eftir allt sem hann er búinn að gera og skapa fyrir þetta Barcelona-lið, þá er ekki hægt að ímynda sér félagið án hans. Án Guardiola værum við ekki sama lið og við erum í dag," sagði Lionel Messi.

„Ég vona að hann framlengi samninginn við fyrsta tækifæri og verði áfram," sagði Messi en samingur hins 39 ára gamla Pep Guardiola rennur út í vor. Guardiola sjálfur vill helst gera bara eins árs samning í einu til þess að halda sér á tánum.

„Hann er með allt á hreinu hjá öllum leikmönnunum og ekki bara hjá mér. Hann er líka alltaf að hugsa um hver sé besta staðan fyrir mig. Hann vill hafa mig nálægt miðjumönnunum þannig að ég komist sem ofast í boltann," sagði Messi.

Messi skoraði þrennu á móti Real Betis í gær og er þar með búinn að skora 31 mark á tímabilinu til þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×