Vetrarólympíuleikar ungmenna eru í fullum gangi í Innsbruck í Austurríki en í dag fór fram keppni í svigi stúlkna. Þar náði Helga María Vilhjálmsdóttir góðum árangri en hún endaði í áttunda sæti.
Helga María lenti í basli í fyrri ferðinni og var í fjórtánda sæti eftir hana. Hún náði sér hins vegar vel á strik í seinni ferðinni, náði sjötta besta tímanum og endaði í áttunda sæti.
Alls voru 54 keppendur frá 47 löndum skráðir til leiks og ljóst að árnagur Helgu Maríu er afar góður - sá besti sem Ísland hefur náð á Ólympíuleikum ungmenna.
Á morgun keppir Jakob Helgi Bjarnason í svigi pilta en það er síðasta keppnis grein Íslendinga í Innsbruck.
