Fótbolti

Raul kominn með 400 mörk | Schalke burstaði Wolfsburg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Spánverjinn Raul skoraði sitt 400. mark á ferlinum í 4-0 sigri Schalke á Wolfsburg á sunnudag. Þá skoraði Hollendingurinn Klaas Jan Huntelaar tvö mörk auk þess að brenna af vítaspyrnu.

„Ég hafði ekki hugmynd um að þetta væri 400. mark mitt en það er gaman að ná þessum áfanga," sagði Raul að leiknum loknum. Hann benti þó á að mikilvægast hefði verið að landa sigrinum.

Raul skoraði 323 mörk í treyju Real Madrid, 44 mörk fyrir spænska landsliðið og hefur nú komið boltanum 33 sinnum í netið á átján mánuðum sem leikmaður Schalke.

Schalke er eftir sigurinn í fjórða sæti deildarinnar með 44 stig. Liðið er aðeins stigi á eftir Bayern München sem varð að sætta sig við markalaust jafntefli gegn Freiburg á laugardag. Bæjarar taka á móti Schalke í stórleik á Allianz-leikvanginum í München á sunnudag.

Dortmund, sem vann 1-0 útisigur á Herthu Berlín á laugardag, vermir toppsætið með 49 stig. Á hæla þeim kemur Borussia Mönchengladbach með 46 stig eftir 2-1 útisigur á Kaiserslautern.

Fallegasta mark helgarinnar skoraði Japaninn Shinji Okazaki með hjólhestarspyrnu í 4-2 tapi Stuttgart gegn Hannover. Markið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×