Arnar Davíð Jónsson tapaði fyrir hollenskum spilara í átta manna úrslitum á Evrópumóti unglinga í keilu og er því úr leik. Arnar Davíð varð Evrópumeistari, fyrstur Íslendinga, á þessu móti í fyrra.
Arnar var einn af 24 keppendum sem tryggðu sér sæti í lokaúrslitum einstaklingskeppninnar fyrir helgina. Hann vann Lukas Hurych frá Tékklandi 2-0 í fyrstu umferð og sló síðan Finnann Saku Konttila út úr 16 manna úrslitum.
Arnar Davíð spilaði á móti Jord van Weeren frá Hollandi í átta manna úrslitunum og tapaði 0-2. Van Weeren vann fyrsta leikinn á aðeins 4 pinnum 175 - 179, en í öðrum leik fékk Hollendingurinn 267 stig en Arnar 200. Arnar lenti því í 5. til 8. sæti á mótinu.

