Körfubolti

Barcelona réð ekki við Spanoulis - Olympiacos í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vassilis Spanoulis
Vassilis Spanoulis Mynd/Nordic Photos/Getty
Það verður gríska liðið Olympiacos sem mætir CSKA Moskvu í úrslitaleiknum í Meistaradeild Evrópu í körfubolta, Euroleague, en þetta var ljóst eftir að Olympiacos vann fjögurra stiga sigur á Barcelona, 68-64, í seinni undanúrslitaleiknum í kvöld.

Barcelona-liðið byrjaði leikinn illa og náði sér aldrei almennilega á strik í Tyrklandi í kvöld. Olympiacos komst í 8-0, var 17-11 yfir eftir fyrsta leikhlutann og með fjögurra stiga forskot í hálfleik. 33-29.

Barcelona hélt sér inn í leiknum en tókst aldrei að ná forystunni af Olympiacos sem var með sjö stiga forskot þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Barcelona minnkaði muninn í tvö stig í lokin en Grikkirnir héldu út og unnu góðan sigur.

Vassilis Spanoulis átti frábæran leik í liði Olympiacos og réð spænska liðið ekkert við hann. Spanoulis endaði leikinn með 21 stig og 6 stoðsendingar. Georgios Printezis kom honum næstu með 14 stig.

Juan Carlos Navarro skoraði 18 stig fyrir Barcelona og Boniface N'Dong var með 10 stig.

Olympiacos mætir CSKA Moskvu í úrslitaleiknum á sunnudaginn en áður spila Barcelona og Panathinaikos um þriðja sætið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×