Sarah Blake Bateman úr Ægi setti Íslandsmet, náði Ólympíulágmarki og tryggði sér sæti í úrslitum í 50 metra skriðsundi á Evrópumeistaramótinu í Ungverjalandi í dag.
Sarah, sem þurfti að synda einskonar bráðabanasund gegn tveimur öðrum sundkonum, kom í mark á 25.24 sekúndum en keppinautar hennar í sundinu syntu á 25.46 sekúndum annars vegar og 25.54 sekúndum hins vegar.
Þremenningarnir syntu á sama tíma í undanúrslitasundinu í dag. Því þurftu þær að stinga sér til sunds á nýjan leik til að fá úr því skorið hver fengi síðasta sætið í úrslitasundinu á morgun.
Vitað var að Sarah Blake myndi leggja allt í sölurnar til að tryggja sér Ólympíusætið enda engin fleiri mót fyrirhuguð hjá henni í aðdraganda Ólympíuleikana.
Frábært sund hjá Söruh og verður fróðlegt að fylgjast með henni í úrslitasundinu í Ungverjalandi á morgun.

