Spánverjinn Rafael Nadal féll í kvöld úr keppni í 2. umferð í einliðaleik karla á Wimbledon-mótinu í tennis í fimm setta leik gegn Tékkanum Lukas Rosol.
Nadal vann fyrsta settið í oddalotu 7-6 en tapaði tveimur næstu 6-4 og 6-4. Hann rétti sinn hlut í fjórða setti sem hann vann 6-2 en Rosol var ekki hættur.
Tékkinn, sem er í 100. sæti heimslistans, gerði sér lítið fyrir og vann síðasta settið 6-4 en þá hafði þurft að setja þakið yfir aðalvöllinn þar sem farið var að skyggja.
Rosol gaf frábærlega upp í leiknum og sótti án afláts gegn Nadal sem vann sigur á Opna franska meistaramótinu á dögunum. Hann átti í vök að verjast gegn Tékkanum sókndjarfa og þurfti að lúta í lægra haldið áður en yfir lauk.
Nadal, sem situr í öðru sæti heimslistans, vann sigur á mótinu árið 2008 og 2010. Hann komst í úrslit í fyrra en tapaði gegn Serbanum Novak Djokovic. Nadal hefur ekki fallið svo snemma úr keppni á stórmóti í tennis síðan árið 2005.
