Fótbolti

Noregur: Enn eitt tapið hjá Stabæk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson og félagar í Start eru á toppnum í B-deildinni.
Matthías Vilhjálmsson og félagar í Start eru á toppnum í B-deildinni.
Stabæk situr sem fastast á botni norsku úrvalsdeildarinnar en í dag tapaði liðið fyrir toppliðinu, Strömsgodset, 2-1 á heimavelli.

Bjarni Ólafur Eiríksson lék allan leikinn í liði Stabæk sem er með aðeins sjö stig eftir fjórtán umferðir. Strömsgodset er á toppnum með 32 stig, þremur meira en Noregsmeistarar Molde.

Veigar Páll Gunnarsson var ekki í hópnum hjá Vålerenga sem vann 2-0 sigur á Sandnes Ulf á útivelli. Steinþór Freyr Þorsteinsson lék allan leikinn með Sandnes Ulf og Gilles Mbang Ondo síðasta hálftímann.

Andrés Már Jóhannesson kom svo inn á sem varamaður á 61. mínútu þegar hans lið, Haugesund, tapaði fyrir Odd Grenland á útivelli, 2-1.

Indriði Sigurðsson lék allan leikinn með Viking sem gerði 1-1 jafntefli við Álasund.

Í norsku B-deildinni tapaði Íslendingaliðið Start mikilvægum stigum þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Hödd á útivelli. Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn en Guðmundur Kristjánsson var tekinn af velli á 76. mínútu í liði Start.

Haraldur Björnsson var svo ónotaður varamaður þegar að Sarpsborg 08 gerði markalaust jafntefli við Tromsdalen á útivelli.

Start er enn á toppnum með 25 stig eftir tólf umferðir og Sarpsborg er í fjórtða sæti með 22 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×