Fótbolti

Matthías klikkaði á víti og Start úr leik | Skellur hjá Lilleström

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Matthías hefur átt frábært tímabil með Start.
Matthías hefur átt frábært tímabil með Start. Mynd / Heimasíða Start
Start, lið Guðmundar Kristjánssonar og Matthíasar Vilhjálmssonar, féll í dag úr norska bikarnum í knattspyrnu eftir tap í vítaspyrnukeppni gegn Tromsö sem leikur í efstu deild.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu var 1-1 svo grípa þurfti til vítaspyrnukeppni. Start klúðraði tveimur spyrnum á meðan liðsmenn Tromsö skoraði úr fyrstu fjórum spyrnum sínum og tryggðu sér sigurinn.

Matthías var einn þeirra sem mátti bíta í það súra epli að klúðra vítaspyrnu. Matthías, sem fór fyrstur á punktinn hjá Start, spilaði allan leikinn líkt og Guðmundur Kristjánsson.

Birkir Már og félagar áfram

Birkir Már Sævarsson og félagar í Brann komust áfram eftir 3-2 útisigur gegn Viking. Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma 2-2 en gestirnir frá Bergen tryggðu sér sigur með marki í síðari hálfleik framlengingar.

Birkir Már lék allan leikinn í hægri bakverðinum hjá Brann og Indriði Sigurðsson stóð vaktina í miðverðinum hjá Viking.

Skellur hjá Birni Bergmann og Pálma Rafni

Björn Bergmann Sigurðarson og Pálmi Rafn Pálmarson og félagar úr Lilleström steinlágu 4-0 á útivelli gegn Bodø/Glimt. Heimamenn gáfu tóninn með tveimur mörkum á fyrsta stundarfjórðunginum og bættu við tveimur mörkum seint í hálfleiknum.

Björn Bergmann og Pálmi Rafn léku allan leikinn með Lillerström.

Þá stóð Andrés Már Jóhannesson vaktina lengst af í 2-0 útisigri Haugesund á Odd Grenland. Árbæingurinn nældi sér í gult spjald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×