Körfubolti

Svartfjallaland lagði Serbíu með flautukörfu frá miðju

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Óvænt úrslit urðu í riðli Íslendinga í undankeppni Evrópumótsins í körfuknattleik í gær þegar Svartfjallaland lagði Serbíu á útivelli. Þá unnu Eistar sigur á Ísrael á útivelli í framlengdum leik.

Íslendingar fóru sem kunnugt er frægðarför til Slóvakíu í gær þar sem heimamenn lágu í valnum 81-75. Svartfellingar gerðu ekki síður stormandi lukku gegn grönnum sínum í Serbíu.

Serbar settu niður vítaskot og komust yfir 71-70 þegar fjórar sekúndur lifðu leiks. Gestirnir gáfust ekki upp og Nikola Ivanovic skoraði með skoti frá rétt fyrir aftan miðju og tryggði Svartfellingum óvæntan sigur. Körfuna má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Allir leikir gærdagsins unnust á útivelli því Eistar fóru góða ferð til Ísrael og unnu tveggja stiga sigur, 88-86, eftir framlengingu.

Sigurinn er einnig óvæntur enda voru Serbar og Ísraelar fyrirfram taldar sterkustu þjóðirnar í riðlinum. Fátt benti líka til annars en að Ísraelar myndu landa öruggum sigri.

Liðið hafði 13 stiga forskot að loknum fyrsta leikhluta og einnig í leikhléi. Þá tóku gestirnir við sér, minnkuðu muninn og jöfnuðu metin með þriggja stiga skoti þremur sekúndum fyrir leikslok.

Í framlengingunni var allt í járnum en Eistarnir unnu að lokum frækinn tveggja stiga sigur. Það er því ljóst að Ísraelar, sem hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum, mæta brjálaðir til leiks gegn Íslendingum í Laugardalshöll á þriðjudagskvöldið.

Staðan í A-riðli að loknum tveimur leikjum

Eistland 4

Svartfjallaland 4

Serbía 2

Ísland 2

Ísrael 0

Slóvakía 0


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×