Körfubolti

Jakob hitnar ekki fyrr en í seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. Mynd/Stefán
Jakob Örn Sigurðarson bakvörður íslenska körfuboltalandsliðsins er búinn að skora 14,0 stig að meðaltali í fyrstu fjórum leikjum liðsins í undankeppni EM. Jakob verður í sviðsljósinu í dag þegar strákarnir taka á móti Eistum klukkan 19.15 í Laugardalshöllinni.

Íslenska liðið hefur ekki verið að spila nægilega vel í fyrri hálfleik í fyrstu tveimur leikjunum í Laugardalshöllinni og hefur tilfinnanlega saknað framlags frá Jakobi á fyrstu tuttugu mínútunum leikjanna.

Jakob náði nefnilega aðeins að skora 4 stig á 33 mínútum í fyrri hálfleikjum íslenska liðsins á móti Serbum og Ísraelum þar sem bara 1 af 11 skotum hans rötuðu rétta leið.

Í seinni hálfleik er hinsvegar allt aðra sögu að segja af Jakobi sem hefur skorað 22 stig í seinni hálfleik í fyrstu tveimur leikjum íslenska liðsins í Höllinni. Jakob hefur nýtt 50 prósent skota sinna eftir hlé og 4 af 7 þriggja stiga skotum hans rötuðu rétta leið.

Eins og sést hér fyrir neðan hefur verið mikill munur á framlagi Jakobs í fyrri og seinni hálfleik í öllum fjórum leikjunum og það er óhætt að segja að íslenska landsliðið þurfi á Jakobi að halda í fyrri hálfleik á móti Eistum í kvöld.



Jakob Örn Sigurðarson í undankeppni EM 2012:

Samtals:

56 stig á 141 mínútu

Skotnýting: 19 af 50 (38 prósent)

3ja stiga skotnýting: 10 af 27 (37 prósent)

Fyrri hálfleikur:

15 stig á 69 mínútum

Skotnýting: 5 af 20 (25 prósent)

3ja stiga skotnýting: 3 af 11 (27 prósent)

Seinni hálfleikur:

41 stig á 72 mínútum

Skotnýting: 14 af 30 (47 prósent)

3ja stiga skotnýting: 7 af 16 (44 prósent)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×