Körfubolti

Lengjubikar kvenna í körfu: Útisigrar hjá Snæfelli, KR og Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Sverrisdóttir.
Guðbjörg Sverrisdóttir. Mynd/Anton
Snæfell, KR og Valur unnu öll örugga útisigra í Lengjubikar kvenna í körfubolta í kvöld. Snæfell vann Fjölni með 30 stigum í Grafarvogi, KR vann Íslands- og bikarmeistara Njarðvíkur með 11 stigum í Ljónagryfjunni og Valur vann 34 stiga sigur á Hamar í Hveragerði. Öll þessi þrjú lið voru að leika sína fyrstu leiki í keppninni sem hófst um síðustu helgi.

Hildur Björg Kjartansdóttir var með 18 stig fyrir Snæfell í 92-62 sigri á Fjölni í Grarfarvogi. Kieraah Marlow gældi við þrennuna með 17 stigum, 18 fráköstum og 7 stoðsendingum og Hildur Sigurðardóttir var með 14 stig og 8 stoðsendingar. Snæfell vann fyrsta leikhlutann 26-7 og var með 21 stigs forskot í hálfleik, 51-30. Porsha Porter var langstigahæst hjá Fjölnir með 26 stig en Fjölniskonur hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í keppninni.

Helga Einarsdóttir átti stórleik með KR þegar liðið vann 11 stiga sigur á Íslands- og bikarmeistarum Njarðvíkur í Ljónagryfjunni, 68-57. Helga var með 21 stig, 15 fráköst og 5 stolna bolta í leiknum. Björg Guðrún Einarsdóttir skoraði 15 stig í sínum fyrsta leik með KR og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var með 13 stig og 11 fráköst í endurkomu sinni í boltann. KR var 27-22 yfir í hálfleik. Sara Dögg Margeirsdóttir skoraði 17 stig fyrir Njarðvík og Eyrún Líf Sigurðardóttir var með 14 stig og 5 stoðsendingar.Íslands- og bikarmeistarar Njarðvíkur hafa því tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í Lengjubikarnum en Njarðvíkurliðið hefur misst marga leikmenn úr meistaraliði sínu.

Valur vann 34 stiga sigur á Hamar í Hveragerði, 93-59. Guðbjörg Sverrisdóttir var með þrefalda tvennu hjá Val, skoraði 23 stig, tók 13 fráköst og stal 12 boltum. Kristún Sigurjónsdóttir skoraði 18 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og Unnur Lára Ásgeirsdóttir var með 17 stig. Marín Laufey Davíðsdóttir var atkvæðamest hjá Hamar með 11 stig og 9 fráköst. valur var 19-15 yfir eftir fyrsta leikhlutann og með 12 stiga forskot í hálfleik, 40-28.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×