Golf

Golf landsliðið lék vel í Tyrklandi

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Rúnar lék vel á lokahringnum
Rúnar lék vel á lokahringnum Rúnar Arnórsson Mynd/Seth
Íslenska karlalandsliðið í golfi stóð sig vel á heimsmeistaramótinu sem lauk i dag í Tyrklandi. Liðið hafnaði í 28. til 32. sæti á tveimur höggum yfir pari en alls tóku 72 þjóðir þátt í mótinu.

Vegna veðurs varð að stytta mótið úr 72 holum í 54 holur. Á lokahringnum var það Rúnar Arnórsson sem lék best íslensku kylfinganna en hann lék á 70 höggum, einu höggi undir pari. Axel Bóasson lék á 71 höggi eða á pari vallarins og Haraldur Franklín Magnús lék á þremur höggum yfir pari.

Það voru Bandaríkjamenn sem stóðu uppi sem sigurvegarar en þeir léku hringina þrjá á 24 höggum undir pari. Í öðru sæti varð lið Mexíkó á 19 höggum undir pari og þriðja til fimmta sæti urðu Suður-Kórea, Þýskaland og Frakkland á 15 höggum undir pari.

Í einstaklingskeppninni var það Sebastian Vazquez frá Mexíkó sem sigraði. Hann lék hringina þrjá á 15 höggum undir pari eða 199 höggum. Axel Bóasson hafnaði í 39. til 47. sæti, á 214 höggum eða á pari. Haraldur Franklín Magnús varð í 81. til 89. sæti. Hann lék á 220 höggum eða á 6 yfir pari og Rúnar Arnórsson hafnaði í 99. til 102. sæti. Hann lék á 222 höggum eða 8 yfir pari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×