Fótbolti

Capello: Var að vona að Ronaldo væri meira meiddur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fabio Capello, þjálfari Rússa, grínaðist með það á blaðamannafundi fyrir leik Rússa og Portúgala að hann hefði vonast eftir því að Cristiano Ronaldo væri meira meiddur en raunin er.

„Ef ég segi alveg eins og er þá var ég að vonast eftir því að Ronaldo væri meira meiddur. Það væri mun auðveldara fyrir okkur að verjast þeim ef hann væri ekki með," sagði Fabio Capello í léttum tón.

Cristiano Ronaldo datt illa í leik Real Madrid og Barcelona um síðustu helgi og meiddist á vinstri öxl. Hann kláraði þó leikinn og svo kom í ljós að meiðslin voru ekki eins alvarleg og óttast var í fyrstu. Cristiano Ronaldo verður því með Portúgal á moti Rússum í Moksvu á morgun.

„Portúgal er með topplið og við verðum að fara vel yfir okkar skipulag í kvöld til að undirbúa okkur sem best fyrir þennan leik," sagði Capello.

„Það er mjög erfitt að stoppa Ronaldo. Það eru allir að reyna það en það gengur illa hjá flestum. Við munu reyna allt okkar til þess að loka á hans styrkleika," sagði Capello.

Rússar hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í undankeppninni með markatölunni 6-0 en Portúgalir eru líka með full hús þótt sigrar þeirra hafa ekki verið eins sannfærandi. Ronaldo skoraði eitt mark í fyrri leiknum og lagði upp tvö mörk í seinni leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×