Körfubolti

Logi heitur í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. Mynd/Anton
Logi Gunnarsson hefur byrjað tímabilið vel með Angers í Frakklandi en hann skoraði 23 stig í öruggum sigri liðsins í gær. Logi er með 20 stig að meðaltali í fyrstu þremur leikjunum og er eins og er stigahæsti leikmaður frönsku C-deildarinnar.

Logi skoraði 23 stig á 32 mínútum í gær þegar Angers vann 83-66 heimasigur á Challans. Logi hitti úr 8 af 13 skotum sínum í leiknum þar af 6 af 9 þriggja stiga skotum sínum. Logi var einnig með 3 fráköst og 2 stoðsendingar.

Logi hefur hitt úr 59 prósent þriggja stiga skota sinna í fyrstu þremur leikjunum (17 af 29) og er að setja niður meira en fimm þrista að meðaltali í leik. Hann skoraði 26 stig í fyrsta leiknum og 11 stig í öðrum leiknum og svo 23 stig í gær.

Logi er gera mun betur en þegar hann var hjá St Etienne í sömu deild tímabilið 2009-10 en þá skoraði hann "bara" 6,4 stig að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×