Frægasti sófi íþróttasögunnar er klárlega sófinn sem körfuboltamaðurinn Jeremy Lin svaf í hjá félaga sínum í NY Knicks áður en hann sló í gegn.
Hinn ungi Lin mátti sætta sig við að sofa á sófanum hjá Landry Fields á meðan hann var út í kuldanum hjá Knicks.
Hann svaf einmitt í sófanum nóttina áður en hann sló í gegn og geðveikin í kringum hann fór í gang. Í dag er Lin vellauðugur maður.
Landry var með sófann að láni og varð að skila honum. "Þau vita örugglega ekki hvað þetta er frægur sófi. Ætli hann sé ekki í geymslu einhvers staðar," sagði Landry.
Líklegt er að einhverjir reyni að grafa sófann upp og hann verður svo líklega seldur fyrir háa upphæð til safnara þó ljótur sé.

