Fótbolti

Shakhtar-Brassarnir ekki nógu góðir fyrir landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Shakhtar á móti Chelsea.
Leikmenn Shakhtar á móti Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mano Menezes, þjálfari brasilíska landsliðsins í fótbolta, hefur ekki mikla trú á löndum sínum sem spila með úkraínska liðinu Shakhtar Donetsk í Meistaradeildinni.

Menezes valdi engan þeirra í hópinn sinn fyrir vináttulandsleik á móti Kólumbíu sem fer fram í Bandaríkjunum í næsta mánuði. Hann valdi heldur ekki Ronaldinho en ætlar að gefa Kaka áfram tækifæri.

Shakhtar er búið að vinna þrettán fyrstu leiki sína í úkraínsku deildinni og er að fara á kostum í Meistaradeildinni þar sem liðið vann Chelsea sannfærandi í síðustu umferð.

Brasilíumennirnir Willian, Fernandinho, Alex Teixeira og Luiz Adriano eru í stórum hlutverkum hjá liðinu en enginn þeirra er nógu góður fyrir landsliðið sem er að undirbúa sig fyrir HM á heimavelli sumarið 2014. Alex Teixeira og Fernandinho skoruðu mörkin á móti Chelsea.

Hulk, framherji hjá Zenit og Giuliano, miðjumaður hjá Dnipro Dnipropetrovsk, voru aftur á móti valdir í liðið.

Það hefur lítið gengið hjá Kaka síðustu ár en hann átti góða endurkomu í landsliðið á dögunum. Kaka skoraði í bæði 6-0 sigri á Írak og 4-0 sigri á Japan í síðasta mánuði en það voru tveir fyrstu landsleikir hans í tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×