Tónlistarmaðurinn Þórir Georg hefur gefið út nýja plötu sem nefnist Janúar. Hún kom út á netinu á nýársdag og er væntanleg í verslanir á geisladisk og kassettu.
Þórir starfaði lengi vel undir listamannsnafninu My Summer as a Salvation Soldier. Hann hefur einnig spilað í böndum eins og Gavin Portland, The Deathmetal Supersquad, Fighting Shit, Ofvitunum og fleirum. Á nýju plötunni leitar Þórir til síðpönks og nýbylgjusveita níunda áratugarins og gerir tilraunakennda popptónlist með skírskotun í raf- og óhljóðatónlist.
