Skoðun

Of langt gengið

Kallað er eftir bættum samgöngum í öllum landsfjórðungum. Ákveðið var 2009 að taka Vaðlaheiðargöng sérstaklega út úr röðinni, þótt þau væru ekki í röð brýnustu framkvæmda, enda myndi umferðin kosta framkvæmdina að fullu. Nú liggur fyrir að ríkissjóður mun bera kostnaðinn og óvíst er um endurgreiðslur. Samt er ætlun stjórnvalda að hraða jarðgangagerðinni.

Nýbirt skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá júní 2010 skýrir stöðuna í knöppu máli. Fjárhagsstaða ríkissjóðs er afar þröng og því verður ekki hægt að ráðast í ýmis brýn og ábatasöm verkefni í næstu framtíð. Stjórnvöld geta ekki tekið á sig frekari skuldbindingar.

Forsenda Vaðlaheiðarganga er að það gangi eftir. Fyrrverandi samgönguráðherra sagði ítrekað í viðtali við Rás 2 þann 2. nóvember 2011, að alltaf hefði verið miðað við að ekki kæmi króna frá ríkinu til verksins og að það tefði ekki aðrar framkvæmdir.

En skýrsla IFS sýnir annað. Ætlunin er að ríkissjóður leggi út fyrir öllum framkvæmdunum og fjármagnskostnaði. Þegar göngin hafa verið í rekstri í þrjú ár verður látið á það reyna hvort fyrirtækið um göngin geti aflað sér lánsfjár til þess að endurgreiða ríkinu. Ríkið tekur áhættuna af umframkostnaði, verðbólgu, umferð og veitir félaginu auk þess ábyrgð fyrir láninu. Þetta er orðið að venjulegri ríkisframkvæmd.

Ástæða viðsnúningsins er einföld. Umferðin mun ekki standa undir stofnkostnaði nema að hluta til. Það átti ekki að koma neinum á óvart. Vorið 2008 samþykkti Alþingi, að tillögu Kristjáns L. Möllers, að ráðist yrði í Vaðlaheiðargöng sem einkaframkvæmd og að ríkið myndi fjármagna þau að hálfu. Þá sagði Steingrímur J. Sigfússon í ræðu á Alþingi þann 17. apríl að hann hefði reiknað út að göngin ættu að geta séð um 45-60% af kostnaðinum. Fullyrðingar ári síðar um að ríkið þyrfti ekkert að greiða voru alltaf reistar á sandi.

Það er of langt gengið að knýja fram Vaðlaheiðargöng, á röngum forsendum, en eiga ekki fyrir Vestmannaeyjaferju sem hæfir nýrri höfn og fresta Dýrafjarðargöngum um átta ár. Það þarf öruggar heilsárssamgöngur alls staðar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×