Byggðaráð Borgarbyggðar ákvað á aukafundi á sunnudagskvöld að reyna að selja hlut sveitarfélagsins í Faxaflóahöfnum. Tilgangurinn er að fjármagna hluta Borgarbyggðar í átta milljarða króna lánveitingu eigenda til Orkuveitu Reykjavíkur.
„Okkur vantar 75 milljónir til að efna það að lána Orkuveitunni," segir Björn Bjarki Þorsteinsson, formaður byggðaráðs Borgarbyggðar, sem á 0,93 prósent í Orkuveitunni og 4,8 prósent í Faxaflóahöfnum. Stærsti eigandinn í Faxaflóahöfnum er Reykjavíkurborg. Aðrir eigendur eru Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarstrandarhreppur og Skorradalshreppur. Aðeins sveitarfélögin og Faxaflóahafnir sjálfar mega kaupa.
„Við höfum alls ekki hug á að selja allan hlutinn okkar og í rauninni aðeins það sem nemur skuldbindingu okkar gagnvart Orkuveitunni," segir Björn Bjarki sem kveður rekstur Borgarbyggðar hafa rétt úr kútnum í fyrra eftir miklar aðhaldsaðgerðir. „Okkur finnst það ansi súrt eftir að vera búin að ganga í gegnum mikla niðurskurðartíma að fara að ganga á handbært fé og eða taka lán til þess að lána Orkuveitu Reykjavíkur."
Verðmat á Faxaflóahöfnum liggur ekki fyrir. „Við höfum áhuga á að þreifa á því hvers virði þessi hlutur okkar er," segir Björn Bjarki. - gar
