Skoðun

Skráargatið

Siv Friðleifsdóttir skrifar
Flestir eru sammála um að heilsan er ein aðalforsenda góðra lífsgæða. Ánægjulegt er að fylgjast með því hve áhugi á lýðheilsumálum vex á Íslandi. Æ fleiri íhuga mataræði sitt og reyna að velja hollar matvörur. Líkamsrækt í einhverju formi er líka að verða eðlilegur þáttur daglegs lífs. Stjórnvöld hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að bæta lýðheilsu. Á síðasta ári var samþykkt að takmarka hlutfall leyfilegs magns transfitusýra í mat. Neytendur geta því nú gengið að því vísu að transfitusýrur í mat séu ekki meira en 2% af fitumagni vörunnar. Ísland er annað landið í heiminum sem samþykkti slíkt, Danmörk var fyrst.

Undirrituð hefur einnig unnið að fleiri málum sem hafa verið í skoðun á Alþingi og tengjast hollustu matvæla. Eitt þeirra er um að skyndibitastaðir upplýsi neytendur um hitaeiningainnihald skyndibitanna, sem staðirnir selja, þannig að neytendur eigi auðveldara með að taka upplýsta ákvörðun þegar slíkur matur er keyptur. Nú þegar er slíkt fyrirkomulag komið á sumstaðar erlendis. Hér á landi hefur t. d. Metro tekið slíkar merkingar upp og er það til fyrirmyndar.

Hitt málið fjallar um að Ísland taki upp norræna hollustumerkið Skráargatið. Neytendur geta gengið að því vísu að matvara sem merkt er Skráargatinu uppfyllir þá kröfu að vera hollust í sínum matvöruflokki. Þegar metið er hvort matvara er nógu holl til að verðskulda merkingu með Skráargatinu er sérstaklega skoðað innihald hennar s.s. sykur, fita og salt.

Alþingi hefur nú samþykkt að taka upp Skráargatið á Íslandi. Nú þegar hefur t.d. Mjólkursamsalan merkt tvo skyrdrykki með Skráargatinu. Íslenskir neytendur munu því eiga auðveldara með að velja holla matvöru hratt og örugglega þegar merkið hefur fest sig í sessi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×