Innlent

Áform um virkjun í Stóru-Laxá

Áin er landsfræg fyrir náttúrufegurð en hér er horft upp eftir ánni þar sem veiðisvæðið endar.
Áin er landsfræg fyrir náttúrufegurð en hér er horft upp eftir ánni þar sem veiðisvæðið endar. mynd/björgólfur Hávarðsson
Landsvirkjun hefur farið fram á við Orkustofnun að fá rannsóknaleyfi vegna áætlana um virkjun í Stóru-Laxá í Hreppum. Hreppsnefnd Hrunamanna hefur engar upplýsingar um málið og hefur óskað eftir fundi með fyrirtækinu.

Það var Dagskráin – fréttablað Suðurlands sem sagði frá áformum Landsvirkjunar á fimmtudag. Um er að ræða virkjun með lóni og aðrennslisgöngum, alls um 20 megavött.

Ragnar Magnússon, oddviti Hrunamanna, segir í viðtali við Fréttablaðið að heimamenn hafi ekki heyrt af áformum um virkjun Stóru-Laxár fyrr en bréf barst nýlega frá Orkustofnun, en þar var óskað umsagnar hreppsnefndarinnar vegna óskar Landsvirkjunar um rannsóknaleyfi.

„Þetta kemur okkur afskaplega mikið á óvart og óskuðum við þess vegna eftir fundi með Landsvirkjun og Orkustofnun,“ segir Ragnar sem telur afskaplega ótrúlegt að heimamenn séu tilbúnir að skrifa undir stórtækar virkjunarhugmyndir á svæðinu. „Í mínum huga kemur aldrei til greina að gefa eftir Laxárgljúfrin eða framkvæmdir sem ógna laxastofninum í ánni.“ - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×