Tveir starfsmenn kanadísku stjórnarinnar hafa verið í Kaupmannahöfn til að rannsaka meint misferli í sendiráði Kanada í borginni, svo sem misnotkun á eignum sendiráðsins, kynþáttafordóma, einelti, ráðningu svarts vinnuafls og vændi í bílskúr sendiráðsins. Öryggisvörður er sagður hafa sést á myndbandsupptöku með vændisfólk í sendiráðsbíl sem lagt hafði verið í bílskúr sendiráðsins.
Nokkrir starfsmenn sendiráðsins greindu utanríkisráðherra Kanada, John Baird, frá meintu misferli og taka fyrrverandi starfsmenn sendiráðsins undir ásakanirnar, að því er kemur fram á fréttavef Ottawa Citizen. Utanríkisráðherrann sendi þegar í stað embættismenn frá Kanada til Kaupmannahafnar til að rannsaka málið.
Árið 2001 komst það í fréttir að fyrrverandi sendiherra Kanada í Danmörku hefði verið kallaður heim árið 1995 eftir að ung starfskona sendiráðsins sakaði hann um kynferðislega áreitni í jólaveislu í sendiráðinu. Í kjölfar þess máls ákvað fyrrverandi utanríkisráðherra Kanada að lögreglu yrði gert viðvart þegar kanadískir sendiráðsstarfsmenn sættu ásökunum um lögbrot. - ibs
Vændisfólk í bílskúr sendiráðsins
