Fjárhagsáætlun 2013 var samþykkt í borgarstjórn í síðustu viku og því miður er ekki hægt að segja að þessari reglu hafi verið fylgt eftir þegar litið er til þeirra skatta- og gjaldskrárhækkana sem dunið hafa á borgarbúum á kjörtímabilinu. Fjölskylda í Reykjavík með börn í grunnskóla og leikskóla mun á næsta ári greiða 330.000 krónum meira fyrir grunnþjónustu hjá Reykjavíkurborg en árið 2010 vegna ákvarðana borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar.
330 þúsundum krónum meira fyrir sömu þjónustu
Á þessu tímabili sem um ræðir, frá árinu 2010-2013, hefur vísitala neysluverðs hækkað um 13% en hækkanir á þjónustu borgarinnar nema um 20% á sama tíma. Hér er ekki tekið á frístundum og öðrum valkvæðum gjöldum heldur aðeins þeim gjöldum sem flestar barnafjölskyldur í borginni þurfa að greiða. Það eru leikskólagjöld, skólamáltíðir, sorphirða, fasteignaskattur, lóðaskattur, útsvar, gjöld frá Orkuveitu Reykjavíkur, frístundaheimili og síðdegishressing í frístundaheimili.
Skattar og gjöld borgarinnar hafa á þessu sama tímabili hækkað um 7% umfram vísitölu.
Reykjavíkurborg gegnir miklu ábyrgðarhlutverki gagnvart þessum sömu fjölskyldum, sem eru flestar með verðtryggð lán, en hækkanir borgarinnar hafa bein áhrif á greiðslubyrði þeirra. Það geta allir skilið að hækkana er þörf, en 20% hækkun skatta og gjalda á þremur árum er í hrópandi mótsögn við fyrrnefnda stefnuskrá. Það er hol velferð þegar stærsta sveitarfélag landsins ákveður hækkanir langt umfram almennt verðlag.

Núverandi meirihluti hafði val og vald til þess að fara aðrar leiðir en leið skatta- og gjaldskrárhækkana en kaus að fara þessa leið. Þarna koma skýrt fram ólíkar áherslur í rekstri en það má segja að fyrri meirihluti hafi fylgt reglu núverandi meirihluta um ráðstöfun fjármagns til velferðar og þjónustu við íbúa betur en þau sjálf. Á þeim erfiðu tímum þegar þurfti að hagræða hjá Reykjavíkurborg tóku allir höndum saman, stjórnmálamenn, starfsfólk og borgarbúar, og náðu að hagræða í kerfinu án þess að hækka skatta og gjöld – án þess að skerða þjónustuna verulega.
Núverandi meirihluti virðist vera sérhlífinn þegar kemur að erfiðum ákvörðunum um rekstur borgarkerfisins. Borgarbúum er hins vegar ekki hlíft, hvorki við skatta- né gjaldskrárhækkunum.
Það er spurning hvort búast megi við enn meiri hækkunum, þannig að 330.000 gæti jafnvel orðið að hálfri milljón fyrir fjölskyldufólk í lok þessa kjörtímabils.