Dominos-deild kvenna fer aftur af stað í kvöld eftir smá hlé vegna bikarúrslitanna og verður þá heil umferð spiluð. Þetta er 22. umferðin af 28 í deildinni. Nýkrýndir bikarmeistarar Keflavíkur heimsækja Hauka í Schenkerhöllina á Ásvöllum.
Keflavík hefur ekki tapað útileik í deild eða bikar á tímabilinu en fyrsta deildartap liðsins í vetur kom einmitt á móti Haukum í síðasta leik liðanna sem fram fór í Keflavík í janúar.
Silfurlið Vals tekur á móti Snæfelli í Vodafonehöllinni á Hlíðarenda en þetta er fyrst leikur liðanna síðan að Snæfell kærði sigur Vals í Hólminum í byrjun ársins en sá leikur var dæmdur Snæfelli í vil 20-0.
KR-konur hafa unnið fjóra leiki í röð með hina frábæru Shannon McCallum í fararbroddi en hún er með 42,5 stig að meðaltali í þessum fjórum sigurleikjum. KR tekur á móti Grindavík í DHL-höllinni í Frostaskjóli í kvöld.
Lokaleikur kvöldsins er síðan á milli Fjölnis og Njarðvíkur í Dalhúsum í Grafarvogi en tækifæri Fjölnis til að bæta stöðu sína á botninum fer nú fækkandi.
Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15.
