Körfubolti

Ingi­bergur hættir sem for­maður: „Miklar til­finningar innra með mér“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingibergur Þór Jónasson hefur formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur á afar erfiðum tímum.
Ingibergur Þór Jónasson hefur formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur á afar erfiðum tímum. Vísir/Hulda Margrét

Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, er á sínu síðasta tímabili sem formaður deildarinnar en þetta tilkynnti hann í leikskrá körfuknattleiksdeildar Grindavíkur sem er nýkomin út.

„Ég sit hér í dag með miklar tilfinningar innra með mér að berjast við að rita formannspistil sem er eitt af því sem mér er skylt að gera. Með smá sorg í hjarta og vott af ótta þá hef ég tekið mjög erfiða ákvörðun. Hún er sú að þetta verður mitt síðasta ár sem formaður deildarinnar,“ skrifaði Ingibergur í leikskrána.

„Ég hef ótal ástæður sem segja mér að þetta sé komið gott en þær munu sennilega aldrei allar líta dagsins ljós,“ skrifaði Ingibergur.

„Eftir að við „flúðum Grindavík“, eins og það hefur oft verið nefnt, þá höfum við haft okkar heimavöll í Smáranum í Kópavogi. Þegar þessi pistill er ritaður þá erum við enn í Smáranum en æfum einnig í Grindavík nokkrum sinnum í viku. Mig langar að leggja áherslu á að við erum á heimleið og er nýja slagorðið okkar „heim á ný“. Verður það mitt leiðarstef á mínu síðasta ári sem formaður ef náttúran leyfir,“ skrifaði Ingibergur.

„Ég hef setið í stjórn Körfunnar að ég held síðan árið 2016. Þá fyrst sem stjórnarmaður, svo framkvæmdarstjóri innan stjórnar og svo formaður til dagsins í dag,“ skrifaði Ingibergur en það má lesa allan pistil hans hér.

Grindvíkingar eru á heimvelli í kvöld þegar þeir fá Keflavík í heimsókn í sjöttu umferð Bónus deildar karla í körfubolta.  Leikurinn hefst klukkan 19.30 og verður sýndur beint á SÝN Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×